Blóðrannsókn

Halló.

Mig langar til að vita hvort að það sé algengt að blóðrannsóknir sýna alldrei neitt. Mínar sýna t.d. ekki neitt í sökki eða CRP þegar ég er með sýkingar og eru næstum alltaf eins. Allveg sama hvað er að þá trúir mér engin afþví að sökkið og CRP er í lagi. Var með drep í eggjastokk og CRP var 16. Svo er annað að ég fæ ekki hita nema þá nokkrar kommur kannski. Minn hiti er í kringum 36,1 – 36,6 en fæ kannski 37,2 – 37,4 þegar ég er með t.d. lungnabólgu. Langar bara að vita hvort að þetta sé algengt og hvort að það séu til einhverjar greinar sem hægt sé að lesa um þetta. Með fyrirfram þökk…

 

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina.

Sökk segir til um hve hratt rauð blóðkorn sökkva í blóðvökva (plasma) á ákveðinni tímaeiningu (mm/klst). Margir þættir hafa áhrif á sökkið svo sem stærð rauðra blóðkorna og samsetning blóðsins. Sökk hækkar við ákveðna sjúkdóma svo sem bólgusjúkdóma. Það hækkar hægt og það tekur einnig nokkrun tíma að lækka niður í eðlilegt gildi. Það er því ekki góð mæling í bráðasjúkdómum en er gagnlegt til að fylgjast með virkni langvarandi bólguástands af ýmsum orsökum svo sem iktsýki. Rannsókn þessi er mjög ósértæk, en mæling á sökki gefur ákveðnar vísbendingar sem þarf að túlka í samhengi við önnur einkenni.

CRP (C reactive protein) mælir magn af prótíni í blóði sem framleitt er af lifrinni og hækkar þegar bólgusvar fer af stað í líkamanum. CRP hækkar við bólgusjúkdóma og bakteríusýkingar og getur einnig hækkað mikið við sumar veirusýkingar. Það virðist einnig einstaklingsbundið hversu mikið CRP hækkar. Hins vegar geta þessar mælingar aldrei annað en gefið vísbendingar um hvað sé að; þær geta ekki gefið greininguna á því hvað er undirliggjandi. Þannig verður að túlka mælinguna út frá hverjum einstaklingi og hvað saga, skoðun og aðrar rannsóknir sýna.

Varðandi hita þá framkalla sumar sýkingar ekki hita.  Algengar ástæður fyrir sýkingum án hita eru mildar sýkingar, hækkandi aldur, lágur grunn líkamshiti, hitalækkandi lyf eða ónæmisbælandi lyf.  Alvarlegar sýkingar geta einnig valdið lækkun á líkamshita.  Margar tegundir kvefpesta valda ekki endilega hita og einnig geta komið lungnabólgusýkingar án hita.

Venjulegur líkamshiti er á þröngu bili og ákvarðast af t.d aldri, virkni, kyni, tíma dags og tíðahringnum, svefni og vöku svo dæmi séu nefnd.  Einnig er hitastig líkamans mismunandi eftir því eftir hvaða leiðum líkamshitinn er mældur (um endaþarm, munn, við húð eða í eyra).  Eðlilegt hitastig mælt um munn er oftast 36.8°c (+/-)0,5.  Það þýðir að eðlilegt hitastig getur verið frá 36.3°c til 37,3°c.  Eðlilegt hitastig mælt um um endaþarm er 37,0°c.  Þó getur þarna verið mismunur á hjá heilbrigðu fólki.  Einnig getur líkamshiti breyst yfir daginn svo nemi um 0,5°c.  Þá mælist yfirleitt líkamshitinn lægstur að morgni og hærri um síðdegi eða kvöld. Líkamshiti getur einnig breyst ef manneskjan er svöng, þreytt, veik eða er kalt.

Ég vona að þetta svari einhverjum af spurningum þínum.

Besta kveðja

Sigríður Ólafsdóttir