Bleyjur

Daginn.
Getur verið slæmt fyrir barn að vera með þraunga bleyju?
Vinn á leikskóla og hér er barn með fjölnotableyju sem á að hafa bleyjuna í næst þrengslum stillingu. Barnið er ekki horað. Vorkenni því þegar ég set bleyjuna á það þar sem ég þarf að þrengja mjög mikið að því til að ná þessari stillingu.

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina,

Mikilvægt er að taubleyjur sitji vel á barninu, þannig að hún þrengi ekki að því án þess að mikið bil skapist, sem veldur því að bleyjan leki. Góð regla er að setja tvo fingur á milli kviðs og bleyju meðan barnið er í liggjandi stöðu til þess að tryggja það að bleyjan verði ekki of þröng þegar barnið sest upp eða hreyfir sig. Það á að vera hægt að renna fingrunum fram og tilbaka án þess að teygjan þrengi stíft að og sömuleiðis á að vera hægt að koma fingri undir bleyju aftan á baki barnsins.

Það á aldrei að þrengja óþægilega að barni og mikilvægt að vera vakandi fyrir því þar sem lítil börn hafa lítinn möguleika á að kvarta, sérstaklega ef þau eru ekki farin að tala. Því skal stilla bleyjuna eftir þeirri stillingu sem passar vel þá stundina og ef það þarf að þrengja bleyjuna óþægilega mikið að barninu er kominn tími til að skipta út bleyjunni í stærri stærð eða annað snið.

Ráðlagt væri að nefna þetta við foreldra barnsins til þess að hægt sé að finna lausn sem hentar vel fyrir alla aðila.

Með kveðju

Auðna Margrét Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur