Blæðingar

Góðan daginn, Ég er transkona og er búinn að vera það í nokkur ár. Fyrir c.a. 2 árum byrjaði að blæða þegar ég þarf að gera þarfir mínar, bæði þegar ég pissa og losa hægðir. Ég er búinn að reyna að fá aðstoð hjá þeim sem sérmennta sig í Trans fólki en ég fæ ekkert svar. Afhverju blæðir og frá hverju ? getur það verið nýrun eða hvað ? ég er ekki með neinn verk , það blæðir bara reglulega þegar ég fer á klósettið.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Það er mjög erfitt að segja til um hvað þetta er og eiginlega ómögulegt án þess að hitta þig, skoða og gera frekari rannsóknir. Ef þeir aðilar sem sérhæfa sig í málum trans einstaklinga hafa ekki reynslu af þessu vandamáli eða svör, ráðlegg ég þér að leita til annarra lækna. Ef þig grunar að þetta geti mögulega verið frá nýrunum skaltu byrja á  að panta tíma hjá þvagfæralækni og fá skoðun og þær rannsóknir sem á þarf að halda og ef ekkert kemur út úr því skaltu biðja hann um að ráðleggja þér hvert þú átt að leita næst. Þannig getur þú fikrað þig áfram þar til viðeigandi skýring fæst. Þú ættir líka að ráðfæra þig við aðra einstaklinga sem hafa farið í gegnum sama ferli og þú og hlera hvort einhver kannist við þetta vandamál sem fylgikvilla trans meðferðar.

Ég hef því miður ekki betri svör handa þér þar sem þitt vandamál er svo sérhæft en vona að þú finnir einhvern sem getur hjálpað þér að finna lausn á þessu.

Gangi þér vel