Bið eftir þungun

Góða kvöldið,

Ég og kærasti minn höfum verið að reyna að eignast barn. Ég hætti á pillunni í febrúar 2014 og átti að byrja að taka hana aftur 4. mars sem ég gerði ekki vegna þess að okkur langar til að eignast barn. Við erum að velta fyrir okkur hvenær ráðlagt er að tala við lækni(eða við hvern talar maður)varðandi það hver ástæðan sé að ekki hafi orðið þungun ennþá. Ég hef heyrt að það geti tekið þónokkurn tíma að verða þunguð eftir að maður hættir á pillunni, eða er það ekki rétt? Var fyrst á Microgyn pillunni og skipti svo yfir í Diane mite. Hef notað pilluna sem getnaðarvörn í ca. 8 ár.Semsagt að þá höfum við stundað óvarið kynlíf síðan í byrjun mars 2014 og ekkert hefur gerst ennþá. Veit ekki hvort við séum með óþarfa áhyggjur af því að geta ekki eignast barn saman… Væri gott að fá ráðleggingar varðandi þetta.

Kveðja,

Ein sem bíður og bíður.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er rétt hjá þér að það getur tekið tíma að verða þunguð þó svo að allt sé í lagi hjá manni lífræðilega. Hins vegar myndi ég ráðleggja ykkur að panta tíma hjá heilsugæslulækni á þessum tímapunkti til þess að ganga úr skugga um að svo sé þar sem það er að verða liðið ár í „æfingabúðum“. Ekki misskilja þetta samt og fara að hafa óþarfa áhyggjur, þetta getur allt verið eðlilegt ennþá en það getur mögulega losað um einhverja spennu að ganga úr skugga um að allt sé eins og það á að vera og hjálpað ykkur í þessu skemmtilega verkefni.

Gangi ykkur vel