Bakflæði barna og inntaka á Losec

Sonur minn 20 mánaða hefur verið greindur með bakflædi, á háu stigi.

Hann hefur hóstað í marga mánuði, alltaf með eins og slím í öndurvegi og sefur mjög illa allar nætur.

Nú er hann búin að vera á Losec í ca 3 vikur en ekki mikil breyting. Við leysum töfluna upp í sjóðandi vatni og blöndum í mat eda graut og gefum honum á kvöldin.

Hefur uppleyst tafla sömu virkni?

Eru samskonar lyf til í fljótandi formi?

Eru kvöldin betri til inntöku á Losec? Ég hef heyrt misjafnt.

Ertu með jafnvel önnur ráð sem gætu hjálpað ungum manni að sofa?

Kveðja

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Kornin í Losec má helst ekki leysa upp samkvæmt fylgiseðli lyfisins og mælt er með því að taka lyfið inn að morgni.  Ef lyfið er að virka ættuð þið að vera farin að sjá mun á bakflæðieinkennunum svo ég mæli með því að þið heyrið aftur í lækninum er þau einkenni eru ekki að ganga tilbaka því það eru til fleiri bakflæðilyf.

Hins vegar er mögulegt með barn sem hefur aldrei sofið vel að þrátt fyrir að bakflæðið skáni þá skáni svefninn ekki strax því hann þarf í raun að læra að sofa. Það er í raun aðskilið vandamál sem þarf að leysa þegar þið eruð viss um að bakflæðið sé ekki lengur að hafa áhrif. Á barnaspítala Hringsins er hægt að fá ráðgjöf í svefnvanda barna og svo er til bók sem heitir Draumaland og er eftir Örnu Skúladóttur hjúkrunarfræðing sem hefur starfað í svefnráðgjöf og hjálpað mörgum afar vel.