Áreynsluasmi

Sonur minn 16 ára hefur ekki getað stundað neinar íþróttir eða hlaup sl. tvö ár. Hann fékk púst hjá heimilislækninum í vor sem gerði eitthvað gagn í fyrstu en ekki lengur. Hann hefur verið í fótbolta frá sex ára aldri. Nú getur hann ekki hlaupið í skólaíþróttunum. Getur þetta verið eitthvað annað en asmi sem er að hrjá hann? Kv.

 

 

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Í dag eru  astmalyf það  góð að langflestir með áreynsluastma geta stundað þær íþróttir  sem þeir hafa áhuga á en mikilvægt er að taka lyfin á réttan hátt.  Astmapústið á að nota rétt fyrir áreynslu og áríðandi er að byrja á hægri upphitun áður en sjálf æfingin hefst. Það er meiri hætta á einkennum ef byrjað er af of miklu kappi.  Ef lyfin hjálpa ekki þarf að endurskoða skammta og lyfjategund.  Þó áreynsluastmi sé nærtækasta skýringin og eðlilegt að meðhöndla hann fyrst geta vissulega  verið aðrar ástæður fyrir mæðinni en það þarf þá ítarlegri skoðun hjá heimilislækni með öndunarmælingu,hjartaprófi og blóðprufum.

Gangi ykkur vel