Að halda B-vítamínum í líkamanum

Spurning:

Ágæti Doktor!

Ég hef grun um að mér gangi illa af einhverjum ástæðum að viðhalda B vítamínum í líkamanum. Venjulegar B-töflur hafa ekkert að segja en ég fékk sprautur, 10 stk. tvisvar í viku í tvígang á síðasta ári (vegna minnisleysis, uppástunga frá heimilslækni). En við þessar sprautur hurfu eða minnkuðu fullt af öðrum einkennum, eins og verkir í höndum og fótum, höfuðverkur og jafnvel verkir í augunum sem voru að pirra mig. Í stuttu máli, meiri orka, minni hjartsláttatruflanir. Minnið breyttist úr „hættulegu minnisleysi" yfir í „venjulega gleymsku" Ég gat farið að spila 5-6 holur í golfi án þess að vera orðin hölt og skökk og úrvinda. Mér var sagt fyrir nokkrum árum að ég væri með vöðvagigt, en mig grunar að kannski sé þetta eitthvað tengt B-vítamínum. P.s. Mér finnst eins og ég hafi verið þreytt alla ævi, þrátt fyrir íþróttaiðkun á yngri árum. Það háði mér alltaf í keppnisþróttum (12 -16 ára) en í fimleikum og þh.(5-10 ára) var allt í lagi með það. En mér var bannað að vera í fímleikum vegna kviðverkja.) En það er erfitt að tala um þetta við heimilslækninn, eins og þeir geti ekki séð heildarmynd, bara einangraða parta, sbr. minnið.
En kannski er ég bara svona vitlaus!

Bestu kveðjur með von um svar
Móðir þriggja „keisarabarna” 9, 7, og 4 ára.

Svar:

Hér á eftir fer mjög stutt yfirlit yfir B-vítamínin. Það sem hrjáir þig getur eflaust verið margt en það eru vissulega vísbendingar til þess að þetta geti verið tengt skorti á B-vítamínum. Þar sem ekki virðist duga fyrir þig að fá vítamínin úr fæðu eða vítamíntöflum getur verið eitthvað að varðandi frásog og upptöku, þ.e. þú virðist ekki ná að nýta B-vítamínin úr fæðunni. Ég ráðlegg þér að fara til sérfræðings í efnaskiptasjúkdómum (ef þú hefur ekki þegar gert það).

B1 vítamín, tíamín: Tíamín er mikilvægt í efnaskiptum kolhýdrata í líkamanum. Frumur taugakerfisins eru sérstaklega háðar tíamíni með tilliti til umbrots kolhýdrata. Ef tíamín vantar í líkamann kemur það fram m.a. í starfsemi hjarta- og æðakerfis, það geta komið truflanir í taugakerfi og meltingarkerfi.

B2 vítamín, ríbóflavín: Ríbóflavín tekur þátt í efnahvörfum frumna sem stuðla að orkulosun úr fitu, kolhydrötum og próteinum. Það er líka nauðsynlegt fyrir eðlilega starfsemi augna. Skortur hefur einkum áhrif á húð og símhúð.

B3 vítamín, níasín: Níasín lækkar kólesteról í blóði, er mikilvægur þáttur í orkumyndun frumna og getur verið æðavíkkandi. Alvarlegur skortur á níasíni leiðir til húðangurs sem einkennist m.a. af meltingartruflunum og þar með lystarleysi, niðurgangi, uppsölu og magabólgum. Truflun í miðtaugakerfi og húð getur líka átt sér stað, ásamt fleiru.

Pantótensýra: Pantótensýra hefur mikilvægu hlutverki að gegna við umbrot og orkumyndun úr fitu, kohýdrötum og próteinum. Eitt umbrotsefna pantótensýru getur hugsanlega lækkað kólesteról. Ekki eru þekkt nein náttúruleg tilfelli skorts á pantótensýru.

B6 vítamín, pýridoxín: Pýridoxín hefur áhrif á ónæmiskerfið, getur dregið úr fyrirtíðaspennu og getur verið krampastillandi og varnað taugaskemmdum. Skortur á pýridoxíni getur lýst sér í geðdeyfð, uppköstum, aukinni tilhneigingu til sýkinga, húðbólgum, blóðskorti, taugabólgum og nýrnasteinum.

B12 vítamín, kóbalamín: Kóbalamín er mikilvægt fyrir frumuvöxt, frumuskiptingu og taugakerfið. Ef skortur verður þá koma einkenni frá blóði og blóðmyndun, taugakerfi og þekjuvef (húð og slímhúð).

Fólínsýra: Fólínsýra er mikilvæg í DNA myndun og þar af leiðir í allri frumuskiptingu. Því er mjög mikilvægt að ekki vanti fólinsýru við meðgöngu. Þekktasta skortseinkenni fólínsýru er blóðskortur.

Bíótín: Bíótín tekur þátt í ýmsum ferlum í líkamanum sem tengast myndun og umbroti fitu, amínósýra og kolhýdrata. Skortur er sjaldgæfur en einkenni skorts eru húðbólgur, þunglyndi eða geðdeyfð, augnslímhúðarbólga, aukið hárlos, blóðskortur, dofi í höndum og fótum, vöðvaverkir, minnkuð matarlyst og velgja.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur