Annað hjónaband og nýtt heimili

Mig langar til að forvitnast um hvort það sé óeðlilegt að vilja eignast nýtt heimili með nýja makanum sínum, í staðinn fyrir að búa á gamla heimilinu hans? Hversu mikill partur er heimilið af persónuleika manneskju?

Þegar við kynntumst þurfti ég að selja mína íbúð og flutti inn á hans heimili sem hann bjó með fyrrverandi konunni sinni. Ég lét strax vita að mér þætti þetta óþægilegt og ég vildi skipta um heimili og stofna okkar eigið. Við giftum okkur fyrir tæpum 3 árum og enn erum við ekki flutt. Þetta hefur skapað mikla vanlíðan hjá mér og pirringurinn safnast upp og það hefur gengið á ýmsu og mér finnst undir niðri þetta vera mesti parturinn af ástæðunni. Ég kvíði að fara „heim“. Mér líður ekki vel á þessum stað. Mér finnst ég ekki eiga neins staðar heima og ég kann ekki við að gera breytingar.

Fyrir það fyrsta langar mig til að vita hvort þessar tilfinningar séu eitthvað óeðlilegar, er ég frek að vilja flytja?
Og annað, hvort það sé hægt að benda okkur á einhvern ráðgjafa í þessum efnum sem við gætum leitað til.

Þakka þér fyrirspurnina

Þetta eru svosem ekki óeðlilegar tilfinningar, en þið þurfið að finna leið til að leysa þetta. Best er að finna ráðgjafa í samskiptum eða sálfræðing. Kári Eyþórsson hefur hjálpað mörgum. Aðalatriðið er þó að þið þurfið að ræða þetta og það er ekki gott að láta svona mál þróast og súrna

Gangi ykkur vel