andremma

Ég á 5 ára barnabarn sem er mjög andfúlt og hefur verið það frá því hann var ungabarn.
Geturðu sagt mér hvers vegna og hvort eitthvað sé hægt að gera. Tek það fram að hann er með allar barnatennur heilar og ekki gjarn á að fá hálsbólgu.

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Algengasta orsök andremmu er talin vera ójafnvægi í bakteríugróðri í munnholi og/eða hálsi. Þessar bakteríur geta lifað í skemmdum tönnum, milli tanna, á tungu og hálseitlum. Þær valda ekki sjúkdómum en gefa frá sér efnasambönd sem valda óþægilegri lykt og þar með andremmu. Yfirleitt er hægt að komast fyrir þetta vandamál með góðri munnhirðu þ.e. tannburstun tvisvar á dag og hreinsun á milli tanna með tannþræði. Eins er hægt að kaupa bæði í matvörubúðum og apótekum munnskol sem innihalda bakteríudrepandi efni og það gæti hjálpað til að nota það reglulega. Ef ljós skán er á tungunni er gott að skafa hana varlega með skeið fyrir aðra munnhreinsun eða bursta hana létt með tannbursta. Önnur möguleg skýring á andremmunni er að slímhúðin í munninum sé þurr en þurr munnur er oft illa lyktandi. Þið ættuð að spá í hvort barnið drekkur nægan vökva yfir daginn því ef ekki getur slímhúðin í munninum verið þurr og það valdið vondri lykt.

Ef þessi ráð duga ekki til að laga ástandið ættuð þið að ráðfæra ykkur við lækni og/eða tannlækni.

Gangi ykkur vel