Alltaf með kvef

Góðan dag,

Ég er alltaf með sýendurtekið kvef, hálsbólgu og stíflað nef, búin að vera með þetta í 3 mánuði, hálskirtlar voru teknir úr vegna hálsbólgu en þetta er samt ekkert að lagast, hvað gæti þetta verið? Gæti þetta verið eitthvað ofnæmi?

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Mögulega eru þetta nefstíflur vegna ofnæmis og þá líklega það sem kallast árstíðabundið ofnæmiskvef  en það stafar venjulega af frjókornaofnæmi, grasofnæmi eða ofnæmi fyri einhverjum ákveðnum gróðurtegundum og er bundið við sumartímann.  Einkennin eru aðallega óþægindi frá nefi og augum. Ofnæmiskvef getur verið vægur kvilli en hjá sumum hefur það veruleg áhrif á lífsgæði. Óþægindin sem geta fylgt ofnæmiskvefi eru hnerrar, nefrennsli, tárarennsli og kláði eða sviði í munni, nefi, augum og koki. Verkur í enni eða andliti, nefstífla, minnkað lyktarskyn, pirringur, lystarleysi og í slæmum tilfellum getur einnig fylgt þessu hósti og astmi.

Best er að fá að vita fyrir hverju þú ert með ofnæmi en hjá lækni er hægt að gera ofnæmispróf. Um leið getur læknirinn ráðlagt þér varðandi meðferð en það eru til ýmis lyf sem gagnast og sum þeirra er hægt að kaupa í apóteki án lyfseðils.

Gangi þér vel