Áhrif krabbameins á frumur

Spurning:

Hvað gerist í frumunum þegar fólk fær krabbamein? Hvernig eru helstu krabbameinslækningar í dag?

Svar:

Í líkamanum eru frumur sífellt að skipta sér, sinna sínu hlutverki og deyja. Líftími hverrar frumu er mismunandi eftir því hvaða hlutverki þær gegna. Venjulega gengur þetta ferli vel fyrir sig og ef eitthvað bregður útaf hefur líkaminn margvíslegar leiðir til að leiðrétta það sem miður fer. En stundum fer þetta ferli úr böndunum. Breyttar frumur verða til og vöxtur þeirra verður stjórnlaus. Hjá krabbameinsfrumum er vöxturinn sambandslaus við stjórnþætti sem stilla frumuvöxt, frumuskiptingu og frumudauða. Margar orsakir eru fyrir því að þessar breyttu frumur verða til. Þekkt eru áhrif utanaðkomandi efna s.s. efna úr tóbaksreyk, mengun og fæðu. Geislar geta einnig valdið breytingum á frumum, erfiðir skipta máli og fleira kemur til.

En þó margar orsakir séu þekktar er orsök breytinganna oft óþekkt. Eftir að breytt fruma hefur myndast koma einnig inn aðrir þættir sem valda því að hún verður illkynja og fer að breiða sér út um líkamann. Varnir líkamans eru mikilvægar, ef ónæmiskerfið er veiklað minnkar hæfni líkamans til að verja sig og líkur á krabbameini aukast. Tilurð krabbameins er því flókin og margþætt.

Það sem gerist inni í frumunni sjálfri og veldur því að hún breytist í krabbameinsfrumu er einnig margvíslegt og í mörgum tilvikum óþekkt. Meðal þess sem mikið hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu eru sindurefni og tengsl þeirra við krabbamein. Sindurefni (free radicals) eru efni sem hafa eina eða fleiri fríar rafeindir, við það verða þau mjög óstöðug og hvarfast við næsta mögulega efni sem þá missir rafeind og hvarfast við næsta mögulega efni. Þessi hvörf geta bæði skemmt líffæri frumanna og truflað starfsemi þeirra. Svokölluð andoxunarefni geta rofið þessa keðju af efnahvörfum en það eru efni sem geta gefið eina af sínum rafeindum. Hlutfall sindurefna og andoxunarefna í líkamanum skiptir máli. Sindurefni myndast við ýmis hvörf í líkamanum og hafa ákveðin hlutverk, andoxunarefni eru einnig til staðar í líkamanum. Þessi efni berast einnig inn í líkamann. Sindurefnin berast í líkamann t.d. með tóbaksreyk og fæðu. Andoxunarefni er að finna í mörgum fæðutegundum. Hægt er að hafa áhrif á hlutfall þessara efna og þar með auka eða minnka líkur á tilurð krabbameins.

Helstu lækningar við krabbameini í dag eru þrennskonar: Fyrst ber að nefna skurðlækningar en með skurðaðgerð er hægt er að fjarlægja staðbundin æxlisvöxt. Til eru lyf sem hemja eða drepa krabbameinsfrumur. Lyfin gera þó ekki greinarmun á heilbrigðum frumum og krabbameinsfrumum og miklar aukaverkanir fylgja því iðulegar gjöf þessara lyfja. Rannsóknir varðandi ný lyf sem einungis ráðast á krabbameinsfrumurnar lofa góðu. Í þriðja lagi eru geislar sem einnig eru notaðir til að vinna á krabbameinsfrumum. Stundum eru fleiri en ein þessara aðferða notuð samtímis. Stöðugar framfarir eru í þekkingu manna á krabbameini, tilurð þess, hegðun og lækningu. Mikilvægast í baráttu við krabbamein eru þó forvarnir. Með því að lifa heilbrigðu lífi, borða hollan og fjölbreyttan mat, hreyfa sig reglulega og forðast það sem vitað er að er veldur miklum skaða í líkamanum s.s. reykingar er hægt að koma í veg fyrir tilurð margra af þeim krabbameinum sem hrjá mannkynið í dag.

Kveðja,
Erla Sveinsdóttir, læknir

Lesa efnisyfirlit um krabbamein
Lesa um líkama og næringu
Lesa um aukakílóin