Afhverju fer dóttir mín ekki ein á klósettið

Góðan daginn, dóttir mín er að verða 6 ára á árinu og það er langt síðan hún fór að nota klósett í stað bleyju. Síðustu mánuði hefur hún ekki getað farið á klósettið án þess að hafa mig með. Hún kann þetta allt ef hun þarf bara að pissa, annars aðstoða eg hana. Hun harðneitar að fara sjalf og getur átt það til að pissa frekar í buxurnar heldur en að fara ein. Afhverju fer hún ekki sjálf á klósettið? Á ég að fara með henni án nokkurra orða eða er þetta eitthvað sem ég þarf að venja hana af?

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Það getur verið erfitt að átta sig á hvað liggur hér að baki. Mögulega tengir hún eitthvað neikvætt við klósettferðir en það jákvæða er að hún finnur öryggi með því að hafa þig með.  Þú skalt frekar halda áfram að fara með henni án þess að gera mál úr því svo að hún lendi ekki í frekari vanda með þessar athafnir og vonandi „aflærist“ þetta neikvæða. Þú getur með tímanum fært þig nær og nær  hurðinni og svo jafnvel fært þig fram á gang með opna hurð en alltaf með hennar samþykki.  Þú skalt líka reyna að ræða við hana um mögulegar ástæður en gerðu það á öðrum tíma heldur en klósettferðirnar og það er mikilvægt að  ræða þetta í afslöppuðum og rólegum aðstæðum. Ef þetta lagast ekki er mögulega ástæða til þess að leita til sálfræðings.

Gangi ykkur vel