Áfallastreita?

Sæl,

Þannig er mál með vexti að fyrir tæplega 2 árum greindist litli bróðir minn, þá 4 ára með hvítblæði.
Þegar hann greindist fann ég fyrir ótta um að ég myndi missa hann en nú er minningin um tímabilið þegar hann greindist í einsskonar móðu, ég man í rauninni ekki alveg hvernig mér leið.
Ég vissi bara að ég þyrfti að vera sterk fyrir systur mína vegna þess að hún var þá 13 ára og ég þá 18, við þurftum þá að vera heima einar í langan tíma í senn og sjá þannig lagað um okkur sjálfar.
Ég man að mér fannst allt þurfa að vera fullkomið á heimilinu okkar, ef einhver færði púða varð ég að laga hann.. ég veit ekki afhverju mér leið svoleiðis því ég er ekki vön að láta þannig.
En nú eru ss. tæplega 2 ár liðin síðan þetta gerðist en litli bróðir minn klárar ekki meðferð fyrr en næsta haust.
Það sem ég var aðalega að velta fyrir mér var að með tímanum í meðferðinni hef ég farið að finna fyrir að ég ímynda mér mjög mikið að eitthvað eigi eftir að gerast.
Bæði ég og systir mín erum allt í einu orðnar mjög bílhræddar, sem er eitthvað sem við fundum ekki fyrir áður en litli bróðir okkar greindist.
Ég get varla setið í bíl án þess að sjá fyrir mér að bíllinn sem ég er í klessir á hvernig einasta bíl sem við keyrum framhjá.
Í gær var gamlárskvöld þar sem flugeldar voru í notkun og ég var alveg virkilega hrædd við flugeldana, sem er eitthvað sem ég hef ekki heldur fundið fyrir áður.
Hvað gæti þetta verið? Bkv

Sæl/sæll

Takk fyrir fyrirspurnina

Það að upplifa svona áfall getur haft mikil áhrif á andlega líðan.  Áföll leggjast mismunandi á fólk en flestir finna fyrir einhverri breytingu á líðan. Hræðsla er algeng í kjölfar áfalla og einnig að verða hræddari um líf sitt og annarra. Ég ráðlegg þér að tala um þetta við þína nánustu, fara yfir það sem er búið að gerast og sjá hvort að þú og systir þín getið unnið úr þessu áfalli á þann veg. Það er mikilvægt eftir áfall að taka sér þann tíma sem maður þarf til þess að sofa, hvílast, hugsa og vera nálægt þeim sem eru manni næstir.  Ef slæm líðan og hræðsla fer að einkenna manns daglega líf þá er mikilvægt að leita ráða hjá sálfræðingi eða öðru heilbrigðisstarfsfólki.

Gangi þér vel