áður en ég verð ófrísk

Sæl veriði.

ég er rúmlega tvítug og kærastinn minn er rétt rúmlega þrítugur. Við höfum rætt þetta margoft, en okkur langar til að eignast barn. Mitt mesta áhyggjuefni er það að ég er með endómetríósa og skilst að ég megi því ekki bíða lengi með að eiga barn, því ég gæti orðið ófrjó. Það fattaðist samt ekki fyrr en ég fór í gallsteinaaðgerð árið 2012. það voru s.s. engin einkenni hjá mér, og fór ég í 6 mánaða sprautu meðferð.

Svo er annað, ég er á pillunni og hef verið í nokkur ár, og ég hef hætt á henni sjálf áður (fyrir nokkrum árum síðan), en þá hætti ég á túr og fór ekki á túr í 5 mánuði. þá fékk ég einhverskonar blöðrur á eggjastokkinn sem ollu því að ég fór ekki á túr.

Einnig fyrir mörgum árum síðan fékk ég klamidýu, þar sem einkenni hennar voru í augunum mínum, s.s. þau fylltust af hvítum stýrum (eða grefti?), þegar verst lá þá varð ég að opna augun á morgnanna með því að nota fingurnar til að hjálpa og opna augun, og ég gat með engu móti horft í birtu. Þetta var meðhöndlað..

Við notum engar aðrar getnaðarvarnir en pilluna. ég hef nokkrar spurningar. Er eitthvað sem hægt er að ráðleggja mér út frá þessum upplýsingum til að geta orðið ófrísk? Hvenær væri best fyrir mig að hætta notkun pillunnar? þyrftum við bæði að fara í skoðun áður en lengra er haldið?

 

Sæl

Takk fyrir fyrirspurnina

Par, sem stundar reglulegt, óvarið kynlíf, er sagt þjást af ófrjósemi eftir að hafa reynt að eignast barn í eitt ár án árangurs. Flestir telja að almennt sé rétt að láta þetta eina ár líða áður en parið leitar til læknis út af ófrjósemi. Talað er um að endometriosa (legslímhimnuflakk) valdi ófrjósemi í um 40% tilfella. Það eru því meiri líkur en minni að þið getir eignast barn án inngripa. Sennilega væri best fyrir þig að vera á pillunni þangað til að þið eruð tilbúin í barneignir og svo byrja að reyna. Farir þú hinsvegar ekki á reglulega blæðingar eftir að þú hættir á pillunni eða færð verki eða önnur einkenni endometriosu ættir þú að hitta kvensjúkdómalækni eða leita beint til IVF klínik (Art medica) og þá yrðu ítarlegar rannsóknir gerðar á ykkur báðum.

Gangi ykkur sem allra best