Að vera óumskorinn

Ég er með spurningar varðandi að vera ekki umskorinn. Þegar maður fær standpínu, á forhúðin að komast niður fyrir kónginn, eða er það kannski misjafnt eftir mönnum? En þegar maður er ekki með standpínu, á forhúðin þá líka að komast niður fyrir kónginn. Ef forhúðin er of þröng til þess að komast niður fyrir kónginn, er þá eitthvað ekki eins og það á að vera? Hvernig er hlutfallið á mönnum sem eru umskornir og þeir sem eru ekki umskornir?

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Það er afar sjaldgæft að menn séu umskornir á Íslandi og reyndar á norðurlöndunum enda sýnt sig að forhúðin teygist sjálfkrafa hjá langflestum með hækkandi aldri.

Þegar ekki er hægt að draga forhúðina upp er talað um forhúðarþrengsli.

Þetta er eðlilegt ástand hjá nýfæddum drengjum en um 96% þeirra eru fæddir með þrönga forhúð.  Þetta hlutfall er 50% við eins árs aldur, 25% við tveggja ára aldur og um þriggja ára aldurinn eru u.þ.b. 10% enn þá með of þrönga forhúð.  Oft er því ekki talað um eiginleg forhúðarþrengsli fyrr en um 3-4 ára aldurinn.  Oftast er beðið með meðferð fram að skólaaldri.

Ef einkenni svo sem óþægindi, endurteknar sýkingar eða erfiðleikar við þvaglát eru til staðar er hugað að meðferð fyrr.

Meðferð er aðalega tvenns konar, annars vegar er „kremmeðferð” þar sem borið er barksterakrem (sams konar og notað er við húðexemum) á þrönga svæðið í 2-3 vikur,  hins vegar er framkvæmd aðgerð.  Kremmeðferðin virkar í sumum tilvikum en ef ekki er framkvæmd aðgerð.

Forhúðin er afar misstór og nær mislangt, það er ákaflega einstaklingsbundið.

Gangi þér vel