Að svelta mig til að léttast?

Heil og sæl 🙂

Ég er að velta fyrir mér hvort það sé í lagi að létta sig með því að svelta sig í einhvern tíma? Endilega svarið með sem flestum smáatriðum og fljótt 🙂

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Svelti er almennt talin kolröng aðferð við að léttast. Vissulega er hægt að fækka kílóunum með þessum hætti en lausnin er ekki varanleg vegna þess að við getum ekki svelt okkur endalaust og þegar líkaminn upplifir sveltiástand bregst hann við með þeim hætti að hann dregur úr starfssemi og hægir á bruna. Þegar viðkomandi fer síðan að borða eðlilega þá er brennslan í líkamanum orðin hægari og viðkomandi þarf færri hitaeiningar og þyngist því hratt á ný. Það tekur langan tíma að leiðrétta þetta ástand.

Almennt er viðurkennt að til þess að vera í eðlilegum holdum þurfum við vöðva. Til að byggja þá upp þarf líkaminn næringu. Vöðvar brenna fleiri kaloríum þannig að við það að hreyfa þá og auka vöðvamassa eykst bruni og hitaeiningaþörf um leið.

Þess vegna þurfum við að borða og borða rétt til þess að komast í eðlilega þyngd.  Á doktor.is finnur þú ýmsar góðar greinar sem fjalla betur um næringu og hreyfingu.

Gangi þér vel