6 ára og á erfitt með að leika í hópi

Sæl öll og takk fyrir góðan vef.
Ég er í vandræðum með dóttur mína sem er 6 ára og byrjar í skóla næsta haust. Hún hefur alltaf verð ákveðin en ekki beint stjórnsöm. Þegar hún var 4 ára eignaðist hún systur og það fór illa í hana, hún varð mjög erfið í skapinu bæði heima og í leikskólanum og missti stundum alveg stjórn á sér ef henni mislíkaði eitthvað. Nú er nú orðin mikið betri en á erfitt með að leika í hóp og vill alltaf helst pikka eina stelpu úr hópnum og leika með henni. Mér sýnist yfirleitt ganga vel hjá henni þegar hún er að leika með krökkum heima ef það er bara einn hjá henni en ef það koma fleiri þá er eins og hún þurfi að taka stjórnina í sínar hendur sem hentar ekki alltaf öllum og þar af leiðandi láta hinir krakkarnir sig hverfa og þannig er það líka í leikskólanum. Nú er þessi stelpa sem er í uppáhaldi hjá henni orðin svolítið þreytt á henni og vill frekar leika við fleiri en bara hana og dóttir mín tekur því sem höfnun og finnst það leiðinlegt.
Hvernig get ég hjálpað henni og kennt henni hvernig maður á að leika í hópi og hjálpað henni með þessa gríðarlegu þörf fyrir að stjóra í leik?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Það er frábært hjá þér að vilja taka á þessu strax áður en hún byrjar í skóla og vandinn gæti undið upp á sig.

Það er ýmislegt sem hægt er að gera. Heima gætuð þið til dæmis látið hana taka þátt í heimilisstörfum og „axla ábyrgð“  auðvitað í takt við þroska og getu. Þannig fær hún tilfinningu um að hún sé mikilvæg og hafi hlutverki að gegna og þörfin fyrir að hafa stjórn á aðstæðum fær útrás.

Ég hvet þig til þess að leita ráða hjá leikskólakennaranum hennar, þar er ótæmandi brunnur af þekkingu og ráðum sem myndu hæfa henni sem einstaklingi.

Gangi ykkur vel