3 ára dóttir mín fíngerð með óvenju stórar hægðir

Dóttir mín er nýorðin 3 ára og hefur hún verðið að glíma við hægðavandmál lengi og það líða vanalega 4-7 dagar milli hægða. Ég hef reynt allt, meltingasjúkdómslækni ,öll lyf sprautur ofnæmisprufur , ekkert svar.
Hún er svo lítil og fingerð og hún fær risa hægðir, fullorðin maður myndi ekki hafa svona hægðir. Hún öskrar og grætur þegar hún kúkar.
Hvað getur þetta verið er einhver með svar fyrir mig?

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina

Þegar hægðatregða er til staðar getur nokkurskonar vítahringur farið af stað. Barnið finnur fyrir sársauka við það að losna við harðar hægðir. Rifur geta myndast í endaþarminum, úr þeim getur blætt og þær valdið sársauka. Ósjálfráð viðbrögð barnsins eru að halda aftur af hægðunum til þess að forðast sársaukann. Við það hafa hægðirnar lengri viðdvöl í ristlinum, meiri vökvi frásogast og hægðirnar verða enn harðari. Þar með viðhelst hægðatregðan. Það lítur út fyrir að dóttir þín sé stödd í þessum vítahring og hann þarf að rjúfa.

Helstu úrræði eru

  • Breyting á fæðu
  • Hegðunarmótun
  • hægðalyf

Í byrjun getur þurft að hreinsa út uppsafnaðar hægðir ef þær eru til staðar. Læknir getur hjálpað ykkur við að meta þörfina á því og ráðlagt ykkur með hvernig úthreinsun hentar best. Stundum er tekin röntgen mynd af kviðarholi til að meta stöðuna. Um leið þarf að passa vel upp á mataræðið og vinna með hegðunina. Þetta krefst mikillar þolinmæði og það er ekki víst að barnið sýni alltaf góða samvinnu. Barnið þarf að finna fyrir ákveðni og hlýju og ekki gleyma að hvetja og hrósa þegar vel gengur.

Ég set hér með tengil á mjög góðar leiðbeiningar af vefnum 6h.is sem er fræðsluvefur um heilsuvernd barna á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala-háskólasjúkrahúss  og Landlæknisembættisins. Þar getur þú lesið þér betur til um mataræðið, hegðunarmótunina og ýmislegt fleira gagnlegt.

Gangi þér vel