Bólga í heilaberki

Góðan daginn,

Þegar ég var yngri, í kringum 6 ára aldurinn var ég greindur með sjúkdóm sem kallaðist á þeim tíma bólgur í heilaberki.  Ég man ekki mikið eftir þessu annað en að ég kastaði mjög oft upp, ég var á flogaveikis lyfjum og fór reglulega í heilalínurit.

Getið þið sagt mér eitthvað meira frá þessum sjúkdómi?  Ég er aðallega forvitin því yngri dóttir mín er farin að sýna svipuð einkenni (hún er 5 ára) og móðir mín tjáði mér að nákvæmlega svona hafi þetta byrjað hjá mér (hún rýkur upp í hita og jafnfljótt niður, henni er reglulega óglatt og svo framvegis).

Ég prófaði að googla þetta og fann bara ekki nokkurn skapaðan hlut um þennann sjúkdóm.

Með von um einhver svör

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina

Bólga er alltaf einkenni um eitthvað en ekki sjálfstæður sjúkdómur. Þannig getur bólga í heilaberki  komið af ýmsum ástæðum en að öllum líkindum hefur verið vírus á ferðinni miðað við þína lýsingu, flogaköstin hafa svo gengið yfir og heilaritið orðið eðlilegt þegar bólgan hjaðnaði.

Ástæðan fyrir því að þú finnur ekkert um þetta er að ef þetta var vírus þá vita menn líklega ekki  hvaða  vírus var á ferð. Veirur sem geta valdið bólgum í höfði eru þó nokkrar og meðferðin yfirleitt sú sama. Meðferðin miðar sem sagt að einkennunum,  þau voru í þínu tilviki flog og  þú varst settur á lyf við þeim þangað til að bólgan hjaðnaði og flogin hurfu. .

Hvað einkenni dóttur þinnar varðar þá nefnir þú engin flog eða önnur einkenni frá höfði eða taugakerfinu. Þess vegna getur ástæða hennar veikinda verið allt önnur, t.d. endurtekin þrálát þvagfærasýking. Hún getur einmitt lýst sér með sveiflóttum hita og ógleði hjá börnum og er tiltölulega algengt vandamál hjá stúlkum.

Ég ráðlegg ykkur að leita til læknis með dóttur ykkar og fá skoðun, mat og ráðgjöf um það hvað sé hér á ferð og ræddu endilega þínar áhyggjur í leiðinni til þess að fá nákvæmari svör.