17 ára með bólur í andliti

Spurning:

Góðan dag

Ég hef átt að stríða við bólur í andliti í um 5 ár, og er nú að verða 17 ára gamall. Samkvæmt gömlu skólabókunum er algengur tími í kringum 1-3 ár, og það ráð sem gefið er við þeim er HREINLÆTI.
Fyrst notaðist ég við ýmis krem úr lyfjabúðunum, en fór svo á endanum til læknis. Ég þvæ mér í framan kvölds og morgna með sápu (yfirleitt ACO Acne sápunni) og hef samkvæmt læknisráði notast við Zineryt. Ég hætti að borða sælgæti og sæta drykki fyrir 4-5 árum, og hef síðan þá forðast sykur og óþarfa fitu eftir megni. Ég skipti um koddaver á hverju kvöldi, nota aldrei sama handklæðið á andlitið á mér oftar en einu sinni, ég passa að ekkert óhreint komist í snertingu við andlitið á mér … sem sagt fullkomið hreinlæti, að ég held.
Ég fékk Zineryt sennilega fyrst fyrir um fjórum árum (þó þetta renni nú svona svolítið saman, eins og gengur) og þá svínvirkaði það og ég losnaði sama sem alveg við bólurnar á örskömmum tíma. Eftir nokkra mánuði komu þær svo aftur og hafa ekki enn farið, þó ég sé enn á Zineryt (þó með hléum).
Ég hef einnig verið á Dalacin (sem virkaði verr en Zineryt, en þurrkar húðina ekki nærri því eins mikið). Um þar síðustu jól fór ég til húðsjúkdómalæknis sem gaf mér fjórfaldan lyfseðil fyrir PanOxyl Acne-geli (styrkleiki 5). Heilu ári síðar fór ég til heimilislæknis sem tók mig samstundis af lyfinu – þetta var alltof langur tími á slíku lyfi. Hann lét mig á Zineryt og Doxýtab töflur (100mg, hálf á dag). Ég hafði áður verið á þeim, þannig að ég varð lítt spenntur yfir því. Það sem fer í taugarnar á mér er að það er sama til hvaða læknis ég fer, alltaf er ég að fá sömu lyfin. Þau eru ekki að virka sem skyldi. Auðvitað virka þau eitthvað, en ég vil meiri árangur.

Getið þið komið með einhverjar ráðleggingar? Mér þætti best ef lyfið væri í pilluformi, því vel flestir áburðir þurrka húðina um of, og valda roða.

Einn á barmi sturlunar

Svar:

Ef einkenni hjá þér eru mikil og fyrri meðferðir hafa ekki borið árangur má íhuga að nota lyfið Roaccutan. Það er lyf sem er einungis notað við acne vulgaris (unglingabólum) á háu stigi. Lyfið hefur mjög miklar aukaverkanir og er vandmeðfarið og einungis læknar sem eru sérfræðingar í húðsjúkdómum mega ávísa lyfinu. Hvort hefja eigi meðferð með þessu lyfi er eitthvað sem verður að ræða við húðsjúkdómalækni.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur

Lesefni á Doktor.is:
(Unglingabólur (acne vulgaris)
(Ráð til að reyna að losna við bólur)