10 mánaða alltaf lasinn

Góðan dag.

Nú má vera að ég verði talin móðursjúk en ég verð að afla mér upplýsinga. Ég er með 10 mánaða dreng sem hefur undan farinn mánuð verið að fá alveg svakalegan hita 40 gráður og aðeins yfir og hann er að standa yfir í 3-4 sólarhringa. Þannig er mál með vexti að hann er með astma og frekar mikinn. Fær bæði flixotide og ventolin og hefur fengið daglega frá 4 mánaða aldri. Hann er einnig með mikið exem og er með 4-5 mismunandi krem við því. Þrátt  fyrir þessi púst er hann með krónískan hósta og kvef og það hefur ekki lagast frá því að hann var 2-3 mánaða. Nú geri ég mér grein fyrir að bæði astmi og exem geta valdið honum vanlíðan þegar kemur að svefni en nú er svo komið að hann sefur orðið ekkert. Það eru slagsmál fyrir hvern einasta blund hvort sem það eru daglúrar eða nætursvefninn. Svefninn hefur aldrei verið vandamál hingað til heldur hófst þetta fyrir um 3 vikum síðan. Hann berst um og rífur svo hrikalega í hárið á sér að ég hef áhyggjur af því að hann sé með höfuðverk. Honum virðist ekki líða vel þegar hann liggur alveg sama hvar það er. Eins og ég segi þá getur verið að ég sé algjörlega móðursjúk en mér finnst þetta eitthvað óeðlilegt. Einnig greindi ég oggulítnn marblett eða einhversskonar húðblæðingu á innanverðu læri sem er ekki á þannig stað að ætti að myndast auðveldlega og hann merst ekki auðveldlega. Hvað í veröldinni gæti þetta verið? Hann var hjá heimilislækni fyrir tveimur dögum og þá voru eyru og annað skoðað og stungið í tánna á honum og þá mældist væg sýking en ekkert til að hafa áhyggjur af hélt hún. Það er alltaf allt skrifað á astmann en ég er orðin hrædd við það að allir aðrir möguleikar séu afskrifaðir vegna hans. Eru einhver ráð til?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Í fyrsta lagi er það þitt hlutverk að vera „móðursjúk“ og gera allt fyrir barnið þitt. Í öðru lagi þekkir þú barnið þitt betur en heilbrigðisstarfsfólk.

Vissulega eru mörg börn á þessum aldri oft lasin og ná sér endurtekið í allar umgangspestir. Oftast er þetta tímabil bundið við leikskólaaldur, þ.e. þann tíma sem þau eru í pössun hjá dagmömmu eða á leikskóla og er  þetta almennt talið byggja upp ónæmiskerfið.  Hins vegar ráðlegg ég þér að leita til barnalæknis og fá betri aðstoð þannig að ekkert sé að fara fram hjá ykkur eins og þú segir sjálf.

Gangi þér vel